Dægurspor

69 Árið 1937 léku klarínettleikarinn Benny Goodman og hljómsveit hans öll kvöld vikunnar í Madhattan-salnum á Hótel Pennsylvania í New York. Dag nokkurn var þeim boðið að halda síðdegistónleika í Paramount-leikhúsinu á Times Square. Þegar hljómsveitin mætti þar snemma morguns til æfinga, biðu þúsundir aðdáenda á torginu fyrir framan leikhúsið. Þar bar mikið á unglingum sem höfðu skrópað í skólanum til að sjá með eigin augum þessa vinsælu tónlistarmenn. Laganna vörðum leist fremur illa á þennan mannsöfnuð á torginu og kröfðust þess að fólkinu yrði hleypt inn í leikhúsið. Það var gert þó klukkan væri ekki nema átta að morgni. Þrjú þúsund manns var hleypt inn. En tvö þúsund urðu að gera sér að góðu að bíða utandyra. Benny Goodman og félagar renndu í gegnum fáein lög í kjallara leikhússins, fóru síðan upp á svið og hófu leikinn. Mikil fagnaðarlæti brutust út meðal áheyrenda. Fólk stóð á fætur og byrjaði að dansa á göngunum á milli sætaraðanna. Sumir voru meira að segja svo djarfir að þeir dönsuðu jitterbug á sjálfu sviðinu. Bandaríkjamenn streymdu út á dansgólfin á þessum árum. Það var talað um stompin‘, scattin‘ og jafnvel beguining. Svo fylgdu lögin í kjölfarið: Stompin‘ at the Savoy (Goodman 1936); Scattin‘ at the Kit Kat (Duke Ellington 1936) og Begin the Beguine (Cole Porter 1935). Danssalurinn Harlem‘s Ballroom varð mekka þeirra sem höfðu dálæti á jitterbug. Svo mikið var dansað þar að skipta þurfti um gólf í salnum á þriggja ára fresti. Benny Goodman lék bæði með hvítum og svörtum hljóðfæraleikurum. Heimskreppa fjórða áratugarins

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=