Dægurspor
Dægurspor 64 M.A. kvartettinn kenndi sig viðMenntaskólann á Akureyri. Hann skipuðu fjórir skólapiltar. Það voru Þorgeir og Steinþór Gestssynir frá Hæli í Árnessýslu, Jakob Hafstein frá Húsavík og Jón Jónsson frá Ljárskógum í Dalasýslu. Kvartettinn söng oft í Reykjavík, einkum í Gamla bíói á árunum 1932 til 1942 við mikla aðsókn. Hann fór einnig í tónleikaferðir víða um land og var afar vel tekið. Lögin, sem þeir sungu, voru yfirleitt af léttara taginu, jafnvel dægurlög en vel útsett og stundum vandsungin. Höfðuðu þau mjög til alþýðu manna og efni þeirra var hæfilega skipt milli gamans og alvöru. Þeim lét vel að koma glettni til skila, bæði í söng og með látbragði. En þeir gátu líka verið alvarlegir í túlkun sinni þegar svo bar undir. Bjarni Þórðarson var undirleikari kvartettsins. LAUGARDAGSKVÖLD Það var kátt hérna’ um laugardagskvöldið á Gili, það kvað við öll sveitin af dansi og spili, það var hó! Það var hopp! Það var hæ! Hann Hofs-Láki, æringi austan af landi, þar úti í túnfæti dragspilið þandi, hæ, dúddelí, dúddelí, dæ! Þar var Dóra á Grund, hún er forkunnar fögur og fín, en af efnunum ganga’ ekki sögur, hún er glettin og spaugsöm og spræk. Þar var einþykka duttlungastelpan hún Stína og hún stórlynda Sigga og Ása og Lína og hún María litla á Læk. Þar var Pétur á Gili og Gústi á Bakka, tveir góðir sem þora að láta það flakka og að stíga við stúlkurnar spor. Þar var Dóri í Tungu og Bjössi á Barði og bílstjóri’ úr Nesinu’ og strákur frá Skarði og hann Laugi sem var þar í vor. Og þau dönsuðu öll þarna í dynjandi galsa og þau dönsuðu polka og ræla og valsa, svo í steinum og stígvélum small, og flétturnar skiptust og síðpilsin sviptust og svunturnar kipptust og faldarnir lyftust og danslagið dunaði’ og svall. Inni’ í döggvotu kjarri var hvíslað og hvískrað og hlegið og beðið og ískrað og pískrað meðan hálfgagnsætt húmið féll á. Þar var hlaupið og velst yfir stokka og steina og stunið og hjúfrað í laufskjóli greina, „sértu’ að hugsa’ um mig hafðu mig þá.“ - - - Gustav Fröding. Magnús Ásgeirsson þýddi.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=