Dægurspor

Dægurspor 50 ODDGEIR KRISTJÁNSSON OG ÁSI Í BÆ Vinirnir Oddgeir Kristjánsson (1911–1966) og Ási í Bæ (Ástgeir Ólafsson 1914–1985) fæddust báðir og ólu mest allan aldur sinn í Vestmannaeyjum. Þeir voru virkir í stjórnmálum, verkalýðsbaráttu og menningarlífi Eyjamanna. Þeir voru einnig potturinn og pannan þegar æfa þurfti skemmtiatriði fyrir fundi, kvöldskemmtanir og kabarettsýningar. Kunnastir eru þeir félagarnir þó fyrir framlag sitt til þjóðhátíðar Vestmannaeyja. Lengi voru öll skemmtiatriði heimatilbúin og tónlistarflutningur í höndum Eyjamanna sjálfra. Sú hefð að semja á hverju ári sérstakt þjóðhátíðarlag hefur verið við lýði síðan á kreppuárunum. Yfirleitt var lagið eftir Oddgeir en textinn oft eftir Ása. Við textasmíðar komu einnig mikið við sögu Árni úr Eyjum og Loftur Guðmundsson. Lög og textar þeirra félaga eru verulega frábrugðin þeirri sönghefð alþýðu sem ríkti á Íslandi í lok 19. aldar og langt fram eftir 20. öld. Hún einkennist af rómantískum ættjarðar- og sveitasöngvum undir þýsk-dönskum áhrifum. Á hinn bóginn sækja lög Vestmanneyinganna fyrirmyndir í danstónlist samtímans. Mörg elstu lög Oddgeirs eru tangóar, en tangóinn barst skömmu áður til Norðurlanda. Auk þess má nefna valsa með textum um sjómannslífið sem urðu vinsæl danstónlist um öll Norðurlönd á fyrstu áratugum aldarinnar (sjómannavalsinn). Textarnir eru að sjálfsögðu margir ástarljóð, en oft með vinalegum húmor sem bjargar þeim frá óhóflegri væmni. Þessir textar samsömuðu sig því lífi og lífsbaráttu fólks og einmitt þess vegna hittu þeir fólk í hjartastað og voru á hvers manns vörum. Lög og textar þeirra félaganna úr Vestmannaeyjum urðu snemma landsfræg, bárust um landið með sjómönnum og farandverkafólki sem var á vertíðum í Eyjum. Mörg þessara laga eru enn í dag lifandi partur af menningunni og sungin af alþýðu manna á söngskemmtunum. Þau eru fyrir löngu orðin almenningseign í þeim skilningi að lifa sjálfstæðu lífi, laus við höfunda stað og tíma. Gunnlaugur Ástgeirsson: Hugsaðu um búskapinn, hættu að daðra ... Árni Guðmundsson á Háeyri og Oddgeir Kristjánsson. Þegar Eyjapeyinn Árni Guðmundsson var við nám í Kennaraskólanum í Reykjavík var hann kallaður Árni úr Eyjum til aðgreiningar frá alnafna sínum sem þar stundaði einnig nám. Árni úr Eyjum varð síðar listamannsnafn hans. Árni orti m.a. textana Ágústnótt, Vor við sæinn og Sigling (Blítt og létt). Ási í Bæ leikur á gítar og syngur.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=