Dægurspor

49 Ísland - Lífið við ströndina VESTMANNAEYJAR OG HIN ÍSLENSKA IÐNBYLTING Árið 1902 var fyrst sett vél í íslenskan fiskibát. Það var sexæringurinn Stanley frá Ísafirði. Á örfáum árum leystu vélbátar gömlu árabátana af hólmi. Það hafði margvíslegar afleiðingar í för með sér fyrir íslenskt samfélag og bylti atvinnuháttum við sjávarsíðuna. Fram að þessu höfðu menn sótt sjóinn á árabátum og þilskipum. Bátsverjar höfðu einkum verið vinnumenn og bændur sem ekki áttu fast heimili í bæjunum við sjávarsíðuna. Að vertíð lokinni hélt því hver til síns heima. Með vélvæðingu bátanna lengdist sá tími sem menn voru á sjó hvert ár. Sjómennska varð aðalstarf manna. Þeir settust því að í bæjunum við ströndina. Með vélunum varð einnig til ný stétt manna, vélstjórar og vélsmiðir. Þannig fjölgaði íbúum sjávarplássanna ört. Eyjamenn tóku forystu í vélbátaútgerð hér á landi. Á vetrarvertíð 1907 voru gerðir út 22 vélbátar frá Eyjum. Ári síðar voru þeir orðnir 40. Árið 1930 voru þeir 97. Afli margfaldaðist og íbúum Eyjanna fjölgaði að sama skapi. Þangað streymdi ungt og þróttmikið fólk, einkum af Suðurlandi. Vestmannaeyjar voru eitt af þeim sjávarplássum sem urðu til nánast frá rótum í upphafi aldarinnar við vélvæðingu sjávarútvegsins, hina íslensku iðnbyltingu. Þar var eina höfnin meðfram endilangri suðurströnd Íslands við ein gjöfulustu fiskimið heimsins á þeim tíma. Íbúum Eyjanna fjölgaði úr rúmum 500 árið 1900 í 3500 árið 1930. Þarna varð til nýtt samfélag með nýjum atvinnuháttum, nýjum sambýlisháttum og nýrri sýn á tilveruna, laust undan viðjum gamla sveitasamfélagsins og menningu þess. Gunnlaugur Ástgeirsson: Hugsaðu um búskapinn, hættu að daðra … Grein úr umslagi hljómdisks með söngvum Ása í Bæ og Oddgeirs Kristjánssonar.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=