Dægurspor

Dægurspor 46 GLÆSIMEYJAR OG GULLIN ÁR – EPOCA DE ORO 1920–1950 Það var einungis fína fólkið í París sem dansaði tangó, ekki almúginn. En þá varð heldur ekki aftur snúið. Yfirstéttin heima í Argentínu varð að viðurkenna tangó sem þjóðardans þarlendra. Blómaskeið var hafið. Að sumu leyti kom frægð tangósins að utan. Var honum fagnað með mikilli hrifningu af öllum stéttum þjóðfélagsins. París hafði mikil áhrif og frönsk tunga varð aðdáendum tangósins töm á tungu. Dansstaðir í Argentínu fengu nöfn eins og Montmartre, Petit Parisien og Pigalle . Það gerði þá heldur heimsborgaralegri en efni stóðu til. Glæstar yngismeyjar næturlífsins tóku sér frönsk nöfn, sögðust vera Parísarstúlkur. En það reyndist líka orðum aukið. Þó einungis yfirstéttin hafi dansað tangó í París, hristi hann saman ólíkar stéttir fólks í Argentínu. Ríkir karlmenn dönsuðu við fátækar stúlkur sem komust í álnir sökum fegurðar og hæfileika sinna á dansgólfinu. Margar urðu miklar glanspíur, fengu greitt fyrir dansinn og nefndust milonguitas . ARGENTÍSKIR TANGÓTEXTAR Söngvarinn og textinn urðu þungamiðja tangósins á gullöldinni. Textarnir höfðu fram að þessu verið grófir og ruddalegir. En nú kvað við annan tón. Dæmigerður argentískur tangótexti er frásagnarljóð. Hann segir sögu eða lýsir umhverfinu. Algeng yrkisefni eru dansinn sjálfur, bandoneón, úthverfin, firring innflytjandans (nýbúans) í nýju landi, leitin að tilgangi lífsins og eftirsjá hins liðna. Menn ortu um hvað það er að vera argentískur, þ.e. argentinidad og veltu sér upp úr trizteza . Það getur þýtt hugarangur, sorg, kvíði, eftirsjá og fleira í þeim dúr, sbr. danska orðið trist. Par dansar tangó á torgi í Buenos Aires. Söngurinn um Malenu er gott dæmi um það sem sagt er í textanum hér til hliðar. Í söngnum segir: „Engin syngur tangó eins og Malena. Í hverju erindi úthellir hún hjarta sínu. Röddin angar af blómum fátækrahverfanna. … Malena syngur tangó með rödd skuggans. Malena ber harm bandóneónsins.“ (Sjá hlustunarefni, disk II, dæmi 12.)

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=