Dægurspor
Dægurspor 36 NEW ORLEANS HLJÓMSVEITIN Hljómsveitirnar í New Orleans voru af ýmsum stærðum, frá fimm upp í hundrað manns. Hljóðfærin, sem leikið var á, voru trompet eða kornett, klarínett, básúna, túba (sousafónn) og trommur. Málmblásturshljóðfæri og trommur komu úr herlúðrasveitum, klarínett frá kreólunum. Hljóðfæraleikurinn þróaðist frá göngumörsum yfir í fyrsta djassinn. Það gerðist ekki á einni nóttu, heldur á löngum tíma. Síðan þróaðist djassinn í ýmsar áttir. En stíllinn sem kom fyrst fram í New Orleans, nýtur enn vinsælda og er jafnan kenndur við þessa fjölmenningarlegu borg. Þykir hann einstaklega frísklegur, enda mikill gleðigjafi. Hann er auðþekkjanlegur á einu atriði. Í stað einleiks eða sólókafla, þar sem hver einleikarinn tekur við af öðrum, eins og algengt er í djassi, leika allir hljóðfæraleikararnir í New Orleans-djassinum lausum hala í sameiginlegum spuna. Þá leika allir af fingrum fram í seiðandi samhljómi ólíkra lúðra. Engar skrifaðar nótur eru til staðar og þá kann einhver að spyrja: Af hverju fer ekki allt í klessu? Því er til að svara að hvert hljóðfæri hefur ákveðnu hlutverki að gegna og auk þess ákveðið tónsvið til umráða. Þetta er ekki ósvipað því sem þekktist í lúðrasveitunum á þessum tíma. Trompet (stundum kornett) er háværasta hljóðfærið í sveitinni og því sjálfkjörinn til að leika laglínuna. Við hverja endurtekningu er laglínan síðan skreytt eftir smekk og getu hvers og eins. Tónar klarínettsins liggja á hærra tónsviði en tónar trompetsins. Þar af leiðandi fer því vel að leika mótrödd fyrir ofan sjálfa laglínuna. Þá er það liprara en hin hljóðfærin. Þess vegna fer því vel að leika líflegar hendingar sem leiða hlustandann oft að hápunkti lagsins. Tónar básúnu liggja fyrir neðan tóna trompets og klarínetts. Básúnuleikarinn spilar oft langa tóna og oftast þá sem þykja mikilvægir í hverjum hljómi. Þannig undirstrikar hann hljómaganginn í laginu. Túbuleikarinn leikur grunntón og fortón (fimmta tón tónstigans) í hverjum hljómi. Það gerist á fyrsta og þriðja taktslagi. Í skrúðgöngum er notast við sousafón í stað túbu. Innan dyra getur hljóðfæraleikarinn hins vegar setið á stól. Þá vilja margir heldur leika á túbu. Þá er auðveldara að hitta á réttan tón og spila hreint. Klarínett. Kornett. Túba.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=