Dægurspor
25 SKÆRT LÚÐRAR HLJÓMA Hljóðfæri þóttu lengi hentug í hernaði. Þau voru notuð til að senda skilaboð og gefa fyrirmæli. Einnig til að blása hermönnum baráttuanda í brjóst og vekja ótta í röðum andstæðinganna. Tónlistarflutningur færði athafnir hersins í viðhafnarbúning, t.d. þegar fallnir hermenn voru heiðraðir. Trommur voru lengi notaðar til að senda hermönnum skipanir. En á seinni hluta 19. aldar tóku herlúðrar við því hlutverki. Vegsemd lúðrasveita jókst um líkt leyti. Þá voru komnir langir og beinir vegir sem gerðu hermönnum kleift að ganga tímunum saman í takt og í beinum röðum eftir dynjandi lúðrablæstri. Miklar framfarir urðu í smíði hljóðfæra á 19. öld. Uppfinningar hugvitsmanna, gott handverk hljóðfærasmiða og leit tónskálda að nýjum tjáningarleiðum skiluðu skjótum árangri. Hljómur blásturshljóðfæra gjörbreyttist. Möguleikar þeirra jukust. Hljóðfærasmiðir nýttu kunnáttu sína á sviði hljóðeðlisfræði sem og tækninýjungar til að þróa ventla á málmblásturshljóðfæri og klappa á tréblásturshljóðfæri. Tónsvið hljóðfæranna jókst. Tilraunir voru gerðar með munnstykki. JOHN PHILIP SOUSA 19. öldin er í ýmsum skilningi tímabil lúðrasveita og hornaflokka. Í kjölfar borgarastyrjaldarinnar (1861–1865) glumdu lúðrasveitarlög um öll Bandaríkin. John Philip Sousa (1854–1932) var mikill brautryðjandi á sínu sviði og ókrýndur konungur lúðrasveitartónlistar. Hann var sonur innflytjenda, faðirinn portúgalskur en móðirin frá Bæheimi (Tékklandi). Sousa þróaði sousafóninn sem er við hann kenndur og skyldur túbu. Hann stjórnaði lúðrasveitum og samdi mörg göngulög, svonefnda sousa-marsa. Meðal frægra laga hans má nefna The Washington Post, Stars and Stripes Forever og The Liberty Bell . Tónverk hans og útsetningar komu góðu skipulagi á tónlist fyrir lúðrasveitir. Notkun hljóðfæra varð stöðluð og færð til nútímahorfs. Sousa-marsarnir urðu þjóðþekktir sem hergöngu- og ættjarðarlög. Hið stöðuga tempó þeirra varð í hugum margra eins og sjálf slagæð hins bandaríska þjóðfélags, óbifanlegt og traust. Hægt var að dansa við þessa marsa svokallað two-step . Það þótti tilbreyting frá valsi sem jafnan er í þrískiptum takti. Sousa-marsarnir nutu einnig hylli í Evrópu. Það sama má segja um lúðrasveitir almennt. John Philip Sousa (1854–1932) var mikill brautryðjandi á sínu sviði og ókrýndur konungur lúðrasveitartónlistar. Nýi heimurinn
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=