Dægurspor
Dægurspor 12 YFIRSTÉTTIN STÍGUR VALS Gefin voru út rit þar sem varað var sterklega við valsinum. Það var hinum nýja dansi hins vegar til mikils framdráttar meðal yfirstéttarinnar að sjálfur Alexander Rússakeisari steig vals sér og öðrum til óblandinnar ánægju. Hinn nýi siður var kominn til að vera. Tvennt var tímanna tákn: Í fyrsta lagi lagði valsinn undir sig heiminn án blessunar einhvers konunglegs dansmeistara. Í öðru lagi sló nýr dans í gegn án þess að vera frá Frakklandi. Danskennurum af gamla skólanum var ekki skemmt og töluðu um „hnignunarskeið dansins“. Svo leið tíminn. Valsinn hélst ekki óbreyttur í hundrað ár. Ýmis afbrigði, útfærslur og smábreytingar litu dagsins ljós. Enskur vals er t.d. hægur. Valsinn réði lögum og lofum á evrópskum dansgólfum um aldamótin 1900. Játvarður sjöundi (Edward VII.) var konungur Breta frá 1901 til 1910. Hann var sonur Viktoríu drottningar og er lýsingarorðið edwardian notað um valdatíð hans. Þá steig prúðbúið fólk vals í tignarlegum danssölum yfirstéttarinnar, þar sem hvert fótmál einkenndist af glæsileika, vönduðu yfirbragði og stjórn á hverju smáatriði. Margir sáu síðar fyrir sér vals sem tákn þess tíma. Þjóðfélagið og dansinn voru byggð upp á sama hátt. Líkt og í lífinu sjálfu var það karlmaðurinn sem gegndi forystuhlutverki. Konan hlýddi. ÖRLÍTIÐ UM VALSTÓNLIST Valsinn barst til Svíþjóðar um 1850 og náði miklum vinsældum. Sænski vísnasöngvarinn, lagahöfundurinn og sjómaðurinn Evert Taube samdi söngva í valstakti. Þar er lýst sjóferðum hans um höfin blá og kynnum af fólki á framandi slóðum. Þau lög og textar höfðu áhrif á íslenska höfunda laga og ljóða. Þar má nefna Eyjapeyjann Ása í Bæ, (sjá bls. 50). Þrískiptur valstaktur hrífur fólk. Stundum má sjá manneskjur, sem sitja hlið við hlið, taka höndum saman og rugga sér í fjörugum fjöldasöng í valstakti. Gamaldags hægur vals skiptist í átta takta lotur. Aukinn hraði eða tempó, sem var að einhverju leyti afleiðing þess að dansinn færðist af grænu grasi utanhúss inn á slétt og jöfn gólf innandyra, hafði áhrif á hljóðfallið og hraðann. Áherslan færðist öll á fyrsta slag (1 2 3 – 1 2 3). Laglínurnar urðu mýkri og jafnari. Loturnar urðu sextán taktar í stað átta, sbr. Dónárvalsinn bls. 10. Nokkrir frægir valsar á nótnablöðum. Valsinn var kominn um langan veg; frá grasi vöxnum grundum sveitanna þar sem bændafólk snerist við harmoníku- og fiðluundirleik, inn í glæsta sali yfirstéttarinnar. Játvarður 7. Bretakonungur.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=