Dægurspor

9 Gamli heimurinn VALS Til að byrja með fékk hið nýja, borgaralega samfélag að láni ýmsa siði og venjur aðalsins, en lagaði þær fljótt að eigin þörfum. Gamlir hoffmanlegir dansar sem í þykjustunni táknuðu kvonbænir og samdrátt kynjanna voru ekki í takt við tíðarandann. Innantómir siðir, gamlar venjur og endalaus uppgerð og látalæti hirðarinnar féllu ekki að hugsunarhætti nýrra tíma. Tilgerðarlegar stellingar og stílfærð spor aðalsins viku fyrir kröfum tímans um kraftmikla og hvatvíslega skemmtan. Nú vildi fólk stjórnast af hugdettum og löngun líðandi stundar. Vals, sem fyrst kom fram á sjónarsviðið í sveitum Bæjaralands og Austurríkis um 1780, svaraði kalli tímans. Sagt er, að hann hafi orðið til úr þjóðdansinum Ländler . Nú fórum við af stað! og skemmtum okkur um stund við margvíslegustu sveiflur og samfléttun armanna. Hversu hreyfingar hennar voru þokkafullar og svifléttar, og þegar við komum að sjálfum valsinum og við svifum í hringjum hvort um annað eins og hnettir himinsins […] Ég var ekki manni líkur lengur. Að þyrlast um með þessa yndislegu stúlku í faðminum eins og stormbylur, svo að allt rann saman fyrir augunum á okkur […] Johann Wolfgang Goethe: Raunir Werthers unga bls. 29. Gísli Ásmundsson þýddi. Valsinn varð á 19. öld að sannkölluðu æði sem fór eins og eldur í sinu um hinn vestræna heim. Um árabil hafði fólk ekki orðið svo frá sér numið í dansi. Hrifningarsæla fór um borgarastéttina þýsku. En framrás valsins varð öllu hægari í öðrum löndum og meðal þýska aðalsins. Síðasti Þýskalandskeisarinn, Vilhjálmur II, ríkti frá 1888 til 1918 og leyfði aldrei vals á hirðdansleikjum sínum. Áður en vals kom til sögunnar var vart um dansfélaga að ræða. Bæri svo við sneri herrann oftar en ekki frá dömunni. Allt breytt- ist með valsinum. Í fyrsta sinn sneru maðurinn og konan hvort að öðru og burtu frá öðru fólki á dansgólfinu. Ennfremur lagði herrann hönd á mjöðm kon­ unnar, hún sína á öxl hans. Svo snerust þau um dansgólfið hring eftir hring. Þetta þótti mörgum mjög nærgöngult athæfi og ein- um of stórt skref í átt að nánari kynnum karls og konu.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=