Handbók um leikinn

9 Börn hefja yfirleitt leikferlið á undirbúningi leiks. Þá velja þau sér hlutverk, byggja leikumhverfið og ákveða leikþema en eftir það hefst hinn raunverulegi leikur. Undirbúningur leiksins getur tekið töluverðan tíma en þegar honum er lokið hefst leikurinn sjálfur þar sem börnin spinna „söguþráð“ sín á milli, til dæmis segja þau oft „minn fór þangað“ og „þín gerði þetta“, og svona gengur leikurinn annaðhvort þar til börnin hætta leiknum sjálf eða þau þurfa að hætta honum vegna annars sem tekur við í skipulagi dagsins (Sara M. Ólafsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir, 2019). Þegar börn deila sameiginlegri reynslu og þekkingu er líklegra að leikurinn fljóti og endist. Ef börn eiga lítið sameiginlegt þurfa þau oft stuðning leikskólakennara eða starfsfólks til þess að hefja leik, viðhalda honum og þróa (Karoff, 2013). Í leik nota börn oft ímyndunaraflið til að endurskapa þann heim sem þau þekkja og skapa ný hlutverk og stundum nýja sögu (Kristín Karlsdóttir, 2017; Kristín Karlsdóttir og Sara M. Ólafsdóttir, 2022). Í rannsókn Kristínar Karlsdóttur (2017) var dæmi um börn sem völdu að leika söguna um Búkollu en samtvinnuðu hana við aðra sögu sem þau þekktu. Hlutverkin sem þau völdu fyrir leik sinn voru hafmeyja, geimvera og risaeðla, sem eru í raun önnur hlutverk en fylgja sögunni um Búkollu. Börnin fundu saman lausnir til þess að láta þessar tvær sögur fléttast saman og sýndu hversu hugmyndarík og fær þau voru við sögusköpun. Mikilvægt er að gefa börnum samfelldan og rúman tíma til leiks. Annars vegar þurfa þau tíma til þess að undirbúa leikinn, þ.e. velja sér hlutverk og skapa leikumhverfið og ímyndaðar aðstæður. Hins vegar þurfa þau tíma fyrir leikinn sjálfan, þar sem þau spinna söguþráðinn, deila reynslu sinni og þekkingu og komast í flæði (Sara M. Ólafsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir, 2019).

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=