Handbók um leikinn

8 Börn taka sér hlutverk eða skapa ímyndaðar aðstæður Eitt af mikilvægum einkennum leiksins er að hann er í þykjustunni, þar tengja börn saman bæði raunveruleikann og ímyndunaraflið (Bodrova, 2008; Paatsch o.fl., 2024). Í leik semja börnin einnig um hlutverkin sín á milli. Þau setja sig í spor annarra og skapa sinn ímyndaða heim. Þau prófa sig áfram í fjölbreyttum hlutverkum, sum þeirra eru fengin úr raunveruleikanum, s.s. pabbi og systir, önnur úr heimi ævintýranna, t.d. ofurhetjur og prinsessur, og enn önnur skapa þau sjálf. Börn skapa einnig ímyndaðar aðstæður með því að tengja leikinn við fyrri reynslu sína og þekkingu. Eins og með hlutverkin sem þau velja sér geta þessar aðstæður annars vegar tengst raunveruleika þeirra, þ.e.a.s. að byggja sér heimili eða sundlaug. Hins vegar nota þau þekkingu sína úr ævintýrum, eins og að vera á sjóræningjaskipi eða í kastala. Auk þess geta þau skapað sinn eigin ímyndaða heim (Wood, 2013). Börnin einblína yfirleitt á hlutverk sín þegar þau leika ímyndaðar aðstæður. Þau kanna hvernig heimurinn virkar með því að fara á milli raunveruleikans og ímyndunarheimsins (Elkonin, 2005).

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=