Handbók um leikinn

6 Sjálfsprottinn leikur Í Aðalnámskrá leikskóla (2023) er megináhersla á sjálfsprottinn leik barna. Börn hafa einmitt útskýrt athafnir sínar sem leik þegar þau hafa frumkvæði og stjórn, geta tekið sér hlutverk eða skapað ímyndaðar aðstæður, notað efnivið á fjölbreyttan hátt og sett reglurnar sjálf (Bodrova, 2008; Sara M. Ólafsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir, 2019). Hér verður fjallað ítarlegar um einkenni sjálfsprottins leiks. Börn hafa frumkvæði og stjórn Það að börn hafi frumkvæði að leik tengist því að hafa frelsi til þess að velja hvar þau eigi að leika, hvert þema leiksins er, hvenær leikur hefst, hvenær hann endar og hvaða efnivið eigi að nota. Þá þurfa börn einnig að geta valið sér leikfélaga, því vinátta og félagsleg tengsl eru þeim mjög mikilvæg (Sara M. Ólafsdóttir og Johanna Einarsdottir, 2019). Þegar börn hafa stjórn á athöfnum sínum, oft með stuðningi fullorðinna, telja þau yfirleitt athafnir sínar vera leik en ef fullorðnir taka yfir athafnir þeirra og fara að stýra þeim hætta börnin að líta á athafnir sínar sem leik (Jóhanna Einarsdóttir, 2014). Börn velja að leika sér en leikur er leiddur af innri hvata og þykir oftast skemmtilegur. Leikur hefur ekki fyrir fram ákveðin markmið eða lokaútkomu, þar skiptir ferlið meira máli (Paatsch, 2024). Hafa þarf í huga að athöfnin þarf fyrst og fremst að byggja á frelsi barnsins til að velja. Þegar börn hafa frelsi til þess að velja er líklegra að úr verði leikur sem byggir á áhuga þeirra og innri hvatningu, feli í sér spennu, sé merkingarbær og börnin séu virkir þátttakendur (MacDonald, 2022).

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=