Handbók um leikinn

4 Leikur samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla Í aðalnámskrá leikskóla (2011, 2023) kemur fram að leikur sé meginnámsleið ungra barna, lífstjáning þeirra og órjúfanlegur þáttur bernskuáranna. Áhersla er á sjálfsprottinn leik, sem þýðir að leikur sé atferli sem börn hafi frumkvæði að en sé ekki stýrt af fullorðnum. Þar segir: „Leikur sem er sjálfsprottinn greinist frá öðru atferli í því að hann er leiddur af börnum; þau ákveða sjálf að leika, hvar og hvenær hann fer fram og um hvað þau leika. Þau semja reglur leiksins, skipuleggja upphaf, framvindu og lok hans.“ Í sjálfsprottnum leik ráða börnin ferðinni og geta byggt ferlið á áhuga sínum og styrkleikum. Litið er á þessa tegund leiks sem ferli fremur en afurð; upphaf og lok ferlisins getur verið óljóst og það er leikurinn í sjálfu sér sem skiptir mestu máli fyrir börnin. Í aðalnámskrá leikskóla (2011, 2023) er leitast við að skilgreina leik með einföldum hætti þrátt fyrir að skilgreining hans sé í raun mjög flókin. Hér er ekki ætlunin að flækja málin, heldur útskýra betur hvað við er átt með þessari skilgreiningu. Mikilvægt er að starfsfólk leikskóla skilji hvað leikur felur í sér, en það getur auðveldað því bæði að skipuleggja leikskólastarf þar sem leikur er þungamiðjan og fylgja því eftir. Birtingarmyndir leiks – leikform Ýmsir þættir þurfa að vera til staðar svo að hægt sé að skilgreina athafnir barna sem leik og því hefur þótt erfitt að greina milli leiks og annarra athafna. Leikur barna hefur til dæmis verið flokkaður eftir mismunandi einkennum eða birtingarmyndum, svo sem; hreyfi- og ærslaleikur, byggingaleikur og hlutverka- og þykjustuleikur (Paatsch, 2024). Hreyfi- og ærslaleikur Hreyfi- og ærslaleikur er mikilvægt leikform, en oft vanmetið, sem hefur mikla þýðingu fyrir börn, nám þeirra og líðan. Í ærslaleik nota börn líkama sinn; þau hlaupa, detta, elta og hnoðast. Auk þess fylgir leiknum hljóð, gleði og látbragð. Þetta leikform er oft áberandi hjá ungum börnum en eldri börn leika sér einnig á ærslafullan hátt. Þegar börn ærslast í leik gera þau greinarmun á alvöru slagsmálum og leik, þau gefa leikmerki og læra að setja mörk og setja sig í spor þeirra sem þau ærslast með. Í ærslaleik skapa börn merkingu í samskiptum við önnur börn (Wood, 2013).

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=