31 Skráningar og mat í skólastarfi Þegar meta á nám barna teljum við mikilvægt að meta börnin í því umhverfi sem þeim líður best í. Einnig viljum við ítreka mikilvægi þess að leikur er meginnámsleið barna og því ætti að vanda valið þegar nám barna er metið. Oftar en ekki þegar hugsað er um námsmat er verið að skoða það sem upp á vantar frekar en það sem barnið kann og getur. Það getur verið flókið að meta nám sem á sér stað í leik, þar sem leikur er ekki línulegt ferli með ákveðna útkomu (Kristín Karlsdóttir o.fl., 2020). Til eru ýmsar aðferðir til að meta nám barna en hér er áherslan á leik barna og því verður fjallað örstutt um tvær aðferðir, námssögur og uppeldisfræðilega skráningu, sem hægt er að nota við námsmat í leikskólum. Þegar starfsfólk leikskóla metur leik nám og vellíðan barna með slíkum aðferðum fylgist það með leiknum og lærir af því sem fram fer. Starfsfólk getur nýtt skráninguna til að læra um börnin, áhuga þeirra og styrkleika og tileinkað sér þannig jákvæða sýn á börnin og byggt þar ofan á. Auk þess geta skráningarnar nýst til að styðja við leik barna og endurskipuleggja námsumhverfi þeirra. Það tekur tíma að tileinka sér nýja starfshætti og telja þeir sem hafa innleitt þessar tvær aðferðir í starfi að gefa þurfi gaum að tíma til ígrundunar og samræðu (Kristín Karlsdóttir o.fl., 2020). Námssöguaðferðin var þróuð í Nýja-Sjálandi og er talin góð nálgun þegar meta á nám í samvinnu við börn og um leið veitir hún innsýn í hvernig börn túlka eigið nám í leik (Carr, 2014). Litið er á nám í félagslegu samhengi og áhersla er á reynslu barna frekar en að meta ákveðna þroskaþætti. Áhersla er á félags- og tilfinningalega þætti sem birtast í samskiptum barna í leikskólastarfi. Aðferðin er m.a. notuð til að skoða hvað vekur áhuga hjá barninu, hvað stuðlar að samvinnu á milli barna og hvað hvetur til samheldni þeirra á milli (Carr, 2001; 2014). Uppeldisfræðileg skráning er skráningaraðferð sem hefur verið þróuð í Reggio Emilia. Skráningin er m.a. notuð til þess að afla gagna um barnið og áhugasvið þess. Oft er sagt að uppeldisfræðileg skráning sé sýnileg hlustun, því með henni má sýna hvernig börn læra. Skráningin er leið til að verða meðvitaðri um eigið starf og getur líka nýst þegar þróa á starfið áfram. Skráningin er því eins konar matstæki fyrir leikskólakennara til að rýna í starfið og getu barnanna (Rinaldi, 2021). Í starfi þar sem unnið er með sveigjanlegt dagskipulag eru skráningar einnig nýttar til að undirbúa námsumhverfið. Umræður Hvernig nýtast matsaðferðirnar sem þið notið til þess að byggja upp leikskólastarf sem hefur leik, áhuga og vellíðan barna að leiðarljósi? Hvaða matsaðferðir eru notaðar hjá ykkur til að meta nám barna í leik? Hvernig metið þið áhuga, styrkleika og vellíðan barna í ykkar leikskóla?
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=