30 Stuðningur við börn í viðkvæmri stöðu Stuðningur og þátttaka starfsfólks í leik barna sem eru í viðkvæmri stöðu skiptir miklu máli. Ekki er hægt að segja að ein skilgreining frekar en önnur eigi við þegar talað er um börn í viðkvæmri stöðu en meðal þátta sem taldir eru hafa áhrif eru fátækt, fjölmenning og líkamleg eða vitsmunaleg fötlun (Bork og Lund, 2023). Stuðningur sem er veittur innan deildar og í samhengi við námsumhverfið er mikilvægur til þess að öll börn fái tækifæri til að efla sig í félagslegum samskiptum og hafi möguleika á að útfæra eða prófa sig áfram í fjölbreyttum aðstæðum (Bork og Rahbek, 2021; Jensen o.fl., 2023). Mikilvægt er að huga að námsumhverfinu þar sem efniviður er fjölbreyttur og aðgengilegur börnum. Tryggja þarf að umhverfið hvetji til sjálfsprottins leiks þar sem börn fá tækifæri til að sýna frumkvæði. Einnig verður að tryggja þeim börnum sem ekki búa yfir þessari færni, stuðning til að efla sig í leiknum þannig að þau öðlist færni til þess að taka eða sýna frumkvæði (Bork og Rahbek, 2021; Jensen o.fl., 2023). Börn sem langar til að taka þátt í leik með öðrum börnum en hafa ekki þá færni sem þarf til þurfa á stuðningi fullorðinna að halda. Til dæmis þegar hópur barna er í hlutverkaleik og starfsmaður verður var við að barn stendur til hliðar og fylgist með, þá getur starfsmaður nýtt tækifærið og stutt barnið til þátttöku í leik. Annað hvort getur hann byrjað að leika einn við barnið eða athugað möguleika þess að það fái að koma inn í leikinn með hinum börnunum. Þess vegna verða starfsmenn leikskóla að vera meðvitaðir um leikinn og búa yfir þeirri færni að geta farið á milli þess að leiðbeina, styðja og fylgjast með börnunum með það í huga að efla færni þeirra til þátttöku í leiknum (Bork og Lund, 2023). Rannsóknir hafa sýnt að börnum sem eru utan leiksins er ekki sjálfkrafa boðið með af öðrum börnum og því verða leikskólakennarar og annað starfsfólk að vera hluti af leiknum (Winther-Lindqvist og Svinth, 2019). Það veitir börnunum öryggi að vita að starfsmenn styðja við þau í leiknum, þar sem leikur er flókið fyrirbæri og krefst þekkingar og læsi á reglum, valdi og samskiptum innan hans (Sara M. Ólafsdóttir o.fl., 2017; Winther-Lindqvist og Svinth, 2019). Þarna kemur þó aftur að mikilvægi þess að starfsfólkið átti sig á þörfinni og hugi að því að ana ekki inn í leikinn og taka stjórnina af þeim börnum sem eru fær og leiða jafnvel leikinn. Umræður Hvernig getið þið nýtt ykkur líkan Borks þegar þið skipuleggið starfið með börnum í viðkvæmri stöðu? Hvernig styðjið þið við börn sem eiga erfitt með að taka þátt í leik með öðrum börnum? Börn sem leika sér ein, gera þau það vegna þess að þau velja það eða er það vegna útilokunar annarra barna?
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=