3 Inngangur Leikur er þýðingarmikill þáttur í leikskólastarfi og á að hafa mikið vægi í dagskipulagi leikskóla. Nýlega voru gerðar breytingar í Aðalnámskrá leikskóla, þar á meðal kafla 7, um leik og nám barna. Í kjölfarið var ákveðið að gefa út handbók um leik þar sem fram koma frekari útskýringar á leik barna, af hverju börn eigi að hafa rúman tíma til leiks í daglegu starfi og hvert hlutverk leikskólakennara er í leik barna. Handbókin á að nýtast öllu starfsfólki sem vinnur með börnum í leikskóla auk þess sem hún getur nýst vel á yngsta stigi grunnskóla. Leikskólakennarar geta nýtt hana til upprifjunar og ígrundunar og annað starfsfólk leikskóla sem hefur minni þekkingu á leik barna getur notað hana til þess að auka skilning sinn á leik og efla sig þannig í starfi með börnum. Í leikskólum hefur orðasambandið „frjáls leikur“ oft verið notað. Við kjósum heldur að tala um sjálfsprottinn leik, því í raun getur leikur í leikskólum aldrei verið alveg frjáls; hann er alltaf bundinn ákveðnum takmörkunum, svo sem leiksvæði, efniviði, reglum, tíma og viðhorfum starfsfólks. Þegar talað er um leik barna er auk þess ávallt notuð eintala, „leikur“, en þegar talað er um „leiki“ er komin fram önnur merking, þ.e. að leikir hafa fyrir fram ákveðnar reglur til dæmis spil eða „Í grænni lautu“. Handbókin er byggð þannig upp að fyrst er fjallað um einkenni leiks og hvernig hann birtist í leikskólastarfinu. Síðan er komið inn á mikilvægi leiks fyrir nám og vellíðan barna en einnig hvað þarf að hafa í huga svo að öll börn geti tekið þátt og haft ánægju af leik. Eftir það er greint frá hlutverki leikskólakennara og annars starfsfólks þegar kemur að leik barna, hvaða þætti ber að hafa í huga þegar leikumhverfi og þátttaka starfsfólks í leik eru skipulögð. Í lokin er bent á aðferðir sem hægt er að nota til þess að meta nám og vellíðan barna í leik, en leikurinn hefur oft átt erfitt uppdráttar sem námsleið vegna þess að það getur verið flókið að sýna fram á það nám sem á sér stað í leiknum. Við viljum þakka öllum sem hafa komið að vinnu við gerð handbókarinnar. Í fyrsta lagi viljum við þakka Mennta- og barnamálaráðuneytinu fyrir að treysta okkur fyrir þessu verkefni og gera handbókina að veruleika. Í öðru lagi þeim sem lásu yfir, þar á meðal starfsfólki leikskóla sem gerði athugasemdir og tillögur og starfsfólki í leikskólafræðum við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Að lokum viljum við þakka fyrir góðan yfirlestur á handbókinni. Við vonum að handbókin komi að góðum notum og geti verið verkfæri til þess að gefa leiknum þann sess í leikskólastarfi sem hann á að hafa. Virðingarfyllst, Dr. Sara Margrét Ólafsdóttir, dósent í leikskólafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Dr. Svava Björg Mörk, lektor í leikskólafræði við Háskólann á Akureyri.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=