26 Valdeflandi námsumhverfi Hér á landi eru margir leikskólar sem vísa í slagorðið „learning by doing“ sem tengt er við hugmyndir John Dewey um nám barna. Dewey (2000) lagði mikla áherslu á hlutverk kennara í námi barna og taldi að þeir ættu að hafa það meginmarkmið að styðja við þá forvitni sem börn búa yfir, þ.e. forvitnina sem birtist í könnun barna og spurningum. Dewey hvatti til þess að kennarar sköpuðu umhverfi sem ögraði börnum til þess að leita og finna, hvort sem um væri að ræða ákveðnar athafnir, hluti eða hugmyndir. Þannig gæti kennari stuðlað að þátttöku barna, námi og þroska (Dewey, 2000). Margir leikskólar eru með eininga- og holukubba sem námsefni. Hönnuður þeirra, Caroline Pratt, hafði sterkar hugmyndir um hlutverk kennara og námsumhverfi barna. Pratt (1990) taldi að kennarar gætu gert nám og kennslu að list og vísindum. Auk þess gætu viðbrögð kennara haft mikil áhrif á börn, hvort sem um væri að ræða óvæntar aðstæður eða skipulagðar. Hún taldi að hæfni kennara til að vinna úr deginum eða jafnvel hverri stund gæti haft úrslitaáhrif. Viðhorf og viðbrögð leikskólakennara og starfsfólks leikskóla hafa áhrif á hvernig börn upplifa sig sjálf þar sem sjálfsmynd barna mótast meðal annars af framkomu fullorðinna við þau (Waters, 2009). Börn bregðast við þeirri örvun og svörun sem þau fá frá umhverfinu. Svörun fullorðinna og þeirra sem koma að börnunum annaðhvort hvetur eða letur barnið og mótar um leið viðhorf barna. Því er mikilvægt að koma fram við börn af virðingu, taka skoðanir þeirra alvarlega og bregðast við áhuga þeirra. Áhrif fullorðinna á börn eru því mikil og mikilvæg fyrir færni þeirra og vellíðan. Ekki er eingöngu um að ræða bein áhrif heldur einnig óbein. Sem dæmi má nefna er að fullorðnir útbúa umhverfið og ákveða hvers konar námsefni og örvun börn skuli fá. Efniviður sem valinn er inn í rýmið ætti að íhuga vel og mikilvægt er að starfsmannahópurinn viti hvers vegna hann er valinn. Rými fyrir leikskólabörn ætti því að vera þannig að það bjóði upp á möguleika á að rannsaka og uppgötva en einnig verða að vera til staðir þar sem börnin geta hvílst og fundið öryggi (Lewin-Benham, 2006; Rinaldi, 2021). Nám í gegnum rannsókn byrjar í raun strax við fæðingu, þar sem börnin byrja að rannsaka umhverfið sitt og fólkið í kringum þau. Þetta er það sem Wood (2013) skilgreinir sem könnunarleik; slíkur leikur ýtir undir nám, þar sem börn eru meðvituð um það sem þau eru að gera. Aðgengi barna að efniviði skiptir máli (Anna Elísa Hreiðarsdóttir, 2019) og því ber að velta því fyrir sér þegar námsefni er valið inn í leikskólann hvaða tilgangi hann gegnir (Rinaldi, 2021). Einnig verða leikskólakennarar sem bera ábyrgð á faglegu starfi (Aðalnámskrá leikskóla, 2011) að velta því fyrir sér hvort efniviðurinn örvi börnin til sköpunar og hvort þau hafi vald yfir þeim verkefnum sem þeim er boðið upp á, þar sem rannsóknir sýna að þau upplifa ánægju þegar þau ráða við viðfangsefnið og um leið eflist sjálfræði þeirra (Anna Elísa, 2019). Leikskólakennarar bera bæði faglega og siðferðilega skyldu til að taka vel upplýstar ákvarðanir um námskrá og námsumhverfi sem skipulagt er fyrir börnin. Hlutverk fagaðila er að tryggja að boðið sé upp á barnvænt umhverfi þar sem áhugi og vellíðan barna eru í fyrirrúmi. Huga beri að því að leikurinn fái rými, þar sem hann skapi möguleika á námi og vellíðan barna (Wood, 2013). Í nýlegri rannsókn Kristínar Dýrfjörð og Guðrúnar Öldu Harðardóttur (2023) kom í ljós að umhverfi sem var skipulagt á þann hátt að börn gátu valið svæði, félaga og nálgast efniviðinn sjálf studdi við valdeflingu þeirra. Umræður Hvernig getur leikskólakennari tryggt að hugað sé að faglegum þáttum í námskrá skólans? Hvers vegna skiptir námsumhverfi máli varðandi valdeflingu barna?
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=