Handbók um leikinn

25 Skipulag og undirbúningur námsumhverfis Skipulag og undirbúningur námsumhverfis í leikskólum eru mikilvægir þættir þegar kemur að leik og námi barna. Wood (2013) minnir á að það eru fullorðnir sem skipuleggja og undirbúa námsumhverfið. Námskrár og aðrir utanaðkomandi þættir hafi auk þess áhrif á það hvernig leik- og námsaðstæður barna eru undirbúnar. Veita þurfi börnum nægan og samfelldan tíma, opinn og fjölbreyttan efnivið og leikfélaga. Starfsmenn leikskóla undirbúi svæðið fyrir leik, skipuleggja þann efnivið sem valinn er inn á svæðið og styðja við leik. Næmni starfsmanna er mikilvægt og þekking þeirra á leik barna getur haft mikið að segja. Sýn starfsmanna á það hvað er mikilvægt stýrir dagskipulaginu og því sem lögð er áhersla á í starfinu (Ingibjörg Ósk og Svava Björg, 2020). Þegar leikskólastarf er skipulagt þarf að huga að áhuga og líðan barna samhliða því að unnið er með námsþætti aðalnámskrár. Leikskólakennarar og starfsfólk leikskóla á að styðja við forvitni barna og náttúrulega þörf þeirra til að rannsaka með því að útfæra stundir þar sem börnin fá námslega örvun. Þó ber að hafa í huga að mjög stýrðar stundir sem vara of lengi, hafa lítinn sveigjanleika, ekkert val eða mjög afmarkaða útkomu ætti ekki að einkenna leikskólastarfið (Wood, 2013). Hlutverk leikskólakennara og annarra starfsmanna er að brúa bilið á milli kennarastýrðra stunda og sjálfsprottins leiks, sem ætti að fá rúman tíma í daglegu starfi (Wood, 2013). Wood (2013) telur að með sveigjanleika í skipulaginu fái áhugi barna að ráða ferðinni og sé þeim tryggður nægur tími til að þróa leikinn og dýpka sig í viðfangsefnum sínum verði til eftirsóknarvert leikskólastarf, þ.e. starf sem byggir á hugmyndum, áhuga og styrkleikum barna. Leikskólakennarar geta ekki skipulagt sjálfsprottinn leik barna, börn gera það sjálf. Þeir geta aftur á móti undirbúið leik- og námsumhverfið sem hefur áhrif á frumkvæði barna til leiks og athafnir þeirra. Því hvetur Wood til samtals um leikinn, hlutverk hans og hvers konar aðstæður börnum er boðið upp á (Wood, 2013). Rinaldi (2021) bendir á að væntingar til barna birtist í námsumhverfi þeirra með því að útbúa námsumhverfið þannig að það örvi þá þætti sem taldir eru mikilvægir. Umræður Hvernig eru kennarastýrðar stundir skipulagðar í ykkar leikskóla og í hvaða samhengi eru þær? Hvernig birtist sjálfsprottinn leikur í skólastarfinu ykkar? Hvernig finnið þið jafnvægi á milli hugmynda barna og kennarastýrðra stunda?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=