24 Dagskipulag – rými fyrir leik Leikur barna á ekki að vera viðbót við dagskipulag leikskóla, heldur megináherslan. Börn þurfa langan og samfelldan tíma til þess að leika sér en þannig fá þau sem mest úr út leiknum og hann verður þeim ánægjulegur. Skipuleggja ætti leikskóladaginn með tilliti til leiks þar sem hann fær nægan tíma í dagskipulagi og einnig þarf að huga að því að dagskipulagið sé ekki þannig að skipt sé oft á milli viðfangsefna (Sara M. Ólafsdóttir og Bryndís Garðarsdóttir, 2016). Clark (2023) hvetur skólasamfélagið til að hægja á sér, þar sem hraðinn virðist einkenna starfið í mörgum menntastofnunum. Í fyrstu bylgju Covid-19 urðu takmarkanir á fjölda barna í rými, sem hafði þau áhrif að það hægðist á dagskipulaginu en það hafði jákvæð áhrif á leik barna og vellíðan þeirra og starfsmanna (Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir og Svava Björg Mörk (2020). Anna Magnea Hreinsdóttir og Kristín Dýrfjörð (2021) benda á að börn upplifi ekki tímann eins og fullorðnir gera, flest börn hafi tímaskyn sem tengist atburðum í dagskipulaginu. Þær telja mikilvægt að leita til barna þegar leikskólastarf er skipulagt, þar sem þau dvelja í leikskólanum allan daginn og því er sjónarmið þeirra nauðsynlegt. Leikur sem meginnámsleið barna þrífst ekki í samfélagi þar sem stöðugt er verið að brjóta upp starfið til að fara úr einu verkefni í annað. Oftar en ekki virðast utanaðkomandi kröfur verða til þess að leikskólasamfélagið upplifir þrýsting á að kenna börnum ákveðna færni sem er mælanleg og að skila sem mestu á sem skemmstum tíma. Raunin er hins vegar sú að leikskólakennararnir setja sér oft sjálfir kröfur sem þeim finnst mikilvægt að framfylgja. Það er því í þeirra valdi og skólasamfélagsins í heild sinni að draga úr spennunni og huga að því sem skiptir máli í heildarsamhenginu. Til að hægt sé að fara gegn ríkjandi menningu þarf faglegt sjálfstæði og öryggi (Clark, 2023). Það er í verkahring leikskólakennara að skipuleggja faglegt starf í leikskólum og forgangsraða verkefnum þar sem leikur, nám og vellíðan barna er höfð leiðarljósi (Ingibjörg Ósk og Svava Björg, 2020). Umræður Hvernig er náms- umhverfið skipulagt með leikinn í huga? Hvað fær rými og tíma í dagskipulaginu ykkar? Hversu oft er dagurinn brotinn upp þar sem skipt er á milli viðfangsefna? Hvernig metið þið námsumhverfið út frá þörfum barna?
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=