23 Leikur barna og hlutverk leikskólastarfsmanna Hlutverk leikskólakennara og starfsfólks eru fjölbreytt þegar kemur að leik barna. Í fyrsta lagi þarf að skipuleggja leikskólastarfið með tilliti til leiks og annars daglegs starfs. Í öðru lagi þarf að undirbúa námsumhverfi barna, svo sem rými og efnivið. Í þriðja lagi þarf hlutverk leikskólakennara og starfsfólks að vera skýrt og hvers konar stuðning börn þurfa við leik sinn. Í fjórða lagi eru skráningar mikilvægur þáttur þegar kemur að leik og námi leikskólabarna. Hér verður fjallað nánar um þessa þætti. Skipulag leikskólastarfs Leikur á að vera þungamiðja leikskólastarfs og er hann skilgreindur samkvæmt aðalnámskrá leikskóla (2011, 2023) sem meginnámsleið barna í leikskólum. Því er mikilvægt að stjórnendur leikskóla tryggi að skólasamfélagið skilgreini hvað leikur felur í sér og leikskólakennarar miðli þekkingu sinni á leiknum til annarra starfsmanna leikskóla (Rinaldi, 2021). Almennt er talið að leikur sé börnum mikilvægur og gegni þýðingamiklu hlutverki í kennslufræði leikskóla. Eins og áður hefur verið rætt er leikurinn sú námsleið sem tryggja ætti börnum í leikskóla, þar sem þeim er veitt rými til að skoða heiminn og fá tækifæri til að vinna úr reynslu sinni. Með stuðningi starfsmanna og félaga sinna geta þau byggt upp nám sitt og þroska, allt í gegnum leik (Loizou og Trawick-Smith, 2022). Mikilvægt er að starfsfólk leikskóla (Rinaldi, 2021) og leikskólakennarar sem faglegir leiðtogar (Aðalnámskrá leikskóla, 2011) geri sér grein fyrir eigin viðhorfum og sýn á menntun leikskólabarna og um leið hvernig viðhorf þeirra og fagþekking hafa áhrif á faglegt og daglegt starf í leikskólanum. Rinaldi (2021) leggur til að starfsmenn spyrji sig hverjar væntingar þeirra séu til barna. Einnig leggur hún áherslu á að starfsmenn rýni í væntingar samfélagsins til barna, þar sem þau viðhorf hafi bein áhrif á starfið í leikskólum. Í bók sinni um hæglæti í leikskólastarfi ræðir Clark (2023) um áhrif klukkunnar á daglegt starf í leikskólum. Hugtök eins og: hraði, að hafa mikið að gera og tímasóun geta haft áhrif á upplifun starfsmanna af daglegu starfi með börnum og reikna má með að það hafi einnig áhrif á börnin. Mikilvægt er að skoða hvort þessi hugtök komi upp í tengslum við rými og tíma sem leikurinn fær í daglegu starfi. Jóhanna Einarsdóttir (1999) bendir á að menning hafi áhrif á þátttöku starfsfólks í leik barna. Knutsdotter Olofson (1987) kemst einnig að þeirri niðurstöðu að ytra umhverfi, menning og samfélag hafi áhrif á leikinn. Hún lítur svo á að leikskólakennarar eigi að skapa umhverfi fyrir börn sem örvi þau til þátttöku í mismunandi leik og skapa menningu sem hvetur til flókins ímyndunarleiks. Leikur er félags- og menningartengdur; flest börn læra að leika með stuðningi frá öðrum börnum og fullorðnum (Wood, 2013). Umræður Hvernig birtast þessar væntingar í námsumhverfinu og í daglegu starfi með börnum? Ræðið viðhorf samfélagsins til leikskólastarfsins og hvernig þau hafa áhrif á leikskólastarfið. Hvað væntingar hafið þið til menntunar leikskólabarna?
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=