Handbók um leikinn

22 Áskoranir í leik barna Hér hefur komið fram hversu þýðingarmikill leikur er fyrir nám og vellíðan leikskólabarna. Mikilvægt er þó að taka leiknum ekki sem gefnum og gera ráð fyrir því að hann sé öllum börnum eðlislægur, alltaf ánægjulegur, gagnlegur og helsta námsleið allra barna. Leikur felur nefnilega í sér völd og getur haft þær afleiðingar að börn sem eru í valdameiri stöðu innan leikskólasamfélagsins eflist í leik á kostnað þeirra sem eru í valdalítilli stöðu. Meðal þeirra þátta sem geta haft áhrif á stöðu barna í leik eru félagslegur og menningarlegur bakgrunnur þeirra, kyn, aldur, þjóðerni og tungumálafærni (Grieshaber og McArdle, 2010). Staða barna innan barnahópsins kemur oft fram í því hvort börn eru virkir þátttakendur í leik með öðrum börnum eða standa utan við leik þeirra (Löfdahl, 2010). Sú staðhæfing að leikur sé alltaf ánægjulegur hefur verið gagnrýnd af fræðimönnum sem hafa bent á að leikur geti haft sínar neikvæðu hliðar. Litið hafi verið framhjá því að börn takist stundum á við alvarleika hversdagsins í leik, þau standi í valdabaráttu og sum börn geti upplifað höfnun og ónot (Grieshaber og McArdle, 2010; Sutton-Smith, 1997). Þegar börn leika sér í félagi við önnur börn þurfa þau að standa í samningaviðræðum og stundum takast þau á. Þessar viðræður og átök snúast oft um hlutverk, reglur, leikföng og innihald leiksins (Donner o.fl., 2022). Börn nota mismunandi aðferðir til þess að neita öðrum börnum um þátttöku í leik (Donner o.fl., 2022; Sara M. Ólafsdóttir o.fl., 2017). Í fyrsta lagi nota þau ímyndunaraflið eða skáldskap, t.d. reglan sem börn hafa búið til um að þurfa að eiga ketti til þess að geta verið með í leiknum. Í öðru lagi hunsa þau eða vanrækja, meðal annars með því að börn fái hlutverk sem skipta litlu máli í leiknum. Í þriðja lagi geta þau átt sér uppáhaldsleikfélaga og valið sér að leika við sum börn fram yfir önnur, þau hafna þá öðrum börnum annaðhvort munnlega eða með annarri tjáningu sem gefur skýrt til kynna að þau megi ekki vera með (Donner, o.fl., 2022). Ýmsar ástæður geta legið að baki því að börn séu ekki þátttakendur í leik. Rannsókn Jóhönnu Einarsdóttur og Söru M. Ólafsdóttur (2020) sýndi að börn sem voru með annan bakgrunn en íslenskan voru frekar útilokuð frá leik en börn með íslenskan bakgrunn. Svipaðar niðurstöður komu fram hjá börnum sem tók þátt í rannsókn Sadownik (2018). Börnum með annan bakgrunn fannst eftirsóknarvert að taka þátt í leik með öðrum börnum en skorti til þess nauðsynlega færni, svo sem í tungumálinu og leikmenningunni. Niðurstöður rannsóknar Donner og félaga (2022) sýndu að börn af sama kyni völdu oftar að leika sér saman og því voru börn stundum útilokuð vegna kyns. Þá bentu niðurstöður Löfdahl og Hägglund (2006) til þess að eldri börn hefðu oftar meiri völd en þau sem yngri voru og gætu ákveðið hver þeirra mættu vera með í leik og hver ekki. Hér hafa komið fram fjölbreyttir þættir sem geta haft áhrif á þátttöku barna í leik. Auk þess hafa rannsóknir sýnt að börn noti oft duldar leiðir til þess að útiloka önnur börn frá leik og því geti útilokunin farið framhjá leikskólakennurum og starfsfólki leikskóla (Cobb-Moore o.fl., 2009; Sara M. Ólafsdóttir o.fl., 2017). Því er mikilvægt að þekkja þær útilokunaraðferðir sem börn nota, styrkja félagslega og tilfinningalega tjáningu barna og styðja þau í átökum og samningaviðræðum, en þannig mætti koma í veg fyrir útilokun barna frá leik (Donner o.fl., 2022).

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=