Handbók um leikinn

20 Leikur og sjálfbærni Leikur getur tengst sjálfbærni með ýmsum hætti en mikilvægt er að kynna börnum náttúruna snemma á lífsleiðinni. Vekja þarf áhuga þeirra á vísindum vegna þess að ung börn læra í gagnvirkum samskiptum við umhverfi sitt. Skapa þarf börnum umhverfi sem vekur forvitni þeirra og gerir þeim kleift að svara spurningum sínum. Rannsóknir hafa sýnt að börn þurfa langan og samfelldan tíma til þess að kanna umhverfi sitt í leik, bæði ein og með öðrum, inni og úti (Elín Guðrún Pálsdóttir og Kristín Norðdahl, 2016). Í leik læra börn um og leggja til vísindalegar hugmyndir sínar, kannanir og tilgátur (Dockett og Perry, 2007). Börn nota til dæmis fjöldann allan af hugtökum tengdum stærðfræði í leik, meðal annars varðandi fjölda, form, tíma, peninga, þyngd, hitastig, lengd, hæð og fjarlægðir (Worthington og van Oers, 2016). Leikur í náttúrunni gefur börnum tækifæri til þess að kanna, skoða og læra um náttúruna á eigin forsendum og með stuðningi leikskólakennara. Leikur og sköpun Leikur felur í sér sköpun, þar sem börn endurtaka ekki einungis það sem þau hafa reynt og upplifað heldur endurskapa reynslu sína þannig að úr verður ný merking (Corsaro, 2015). Endursköpunin er leið barna til að læra að hugsa á gagnrýninn hátt, sem er mikilvægur eiginleiki fyrir nám þeirra og vellíðan, bæði í nútíð og framtíð (Kingdon, 2020). Sköpun í leikskóla má útfæra á ýmsa vegu en mestu skiptir að börn fái verkefni sem vekja með þeim forvitni og ánægju (Anna Elísa Hreiðarsdóttir og Kristín Dýrfjörð, 2019). Dagskipulag þarf að vera sveigjanlegt og styðja við frumkvæði barna og áhuga (Lena Sólborg Valgarðsdóttir og Svanborg R. Jónsdóttir, 2016). Því er þýðingarmikið að veita börnum aðstæður sem styðja við sköpun þeirra, t.d. með því að gefa börnum nægan og samfelldan tíma og bjóða upp á opinn og fjölbreyttan efnivið sem hvetur til sjálfsprottins leiks.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=