19 Leikur og læsi Leikur barna í leikskóla styður við læsi og samskipti á fjölbreyttan hátt. Í leik nota börn skapandi og gagnrýna hugsun, þau leysa vandamál, tjá sig með fjölbreyttum hætti og efla félagslega færni sína. Þau æfa tungumálið og þróa í öruggum aðstæðum með jafningjum og með stuðningi fullorðinna (Han og Johnson, 2021; Jórunn Elídóttir og Sólveig Zophoníasdóttir, 2019). Í leik læra börn að skiptast á, spyrja spurninga, segja frá, skapa söguþráð og viðhalda honum (Paatsch, 2024; Jórunn og Sólveig, 2019). Þessir þættir eru allir mikilvægir í námi barna og ættu að vera meginnálgunin í læsi. Rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós að leikskólakennarar og starfsfólk leikskóla nota frekar formlega kennslu sem miðar að ákveðinni færni í afmörkuðum þáttum lestrarnámsins í stað þess að nýta leikinn sem námsleið (Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, 2011). Gott er að hafa í huga að leikskólastarf og nám í leikskóla takmarkast ekki við þrönga þætti eins og stafi og hljóð heldur þarf að gefa gaum að lestri bóka, orðaforða og ritmáli á fjölbreyttan hátt (Rannveig Oddsdóttir og Hrafnhildur Ragnarsdóttir, 2021). Með lestri bóka í leikskólum öðlast börn sameiginlega reynslu sem þau geta nýtt í leik.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=