Handbók um leikinn

18 Leikur, grunnþættir menntunar og námssvið leikskóla Aðalnámskrá leikskóla (2011) byggir á grunnþáttum menntunar, sem eru settir fram sem sex mismunandi þættir en tengjast samt innbyrðis og eru háðir hver öðrum. Grunnþættirnir eru: Læsi; sjálfbærni; heilbrigði og velferð; lýðræði; jafnrétti; sköpun. Í aðalnámskránni er lögð áhersla á að grunnþættir menntunar fléttist inn í allt starf leikskóla og þar með leik barna. Hægt er að skoða leik barna út frá einum ákveðnum grunnþætti en mikilvægt er að hafa í huga að þeir skarast og geta allir birst í einum og sama leiknum. Nátengd grunnþáttum menntunar eru svo námssvið leikskóla, sem eru: Læsi og samskipti; heilbrigði og vellíðan; sjálfbærni og vísindi; sköpun og menning. Um þessa þætti er ítarlega fjallað um í breytingum sem gerðar voru á kafla 9 í Aðalnámskrá leikskóla árið 2023. Einungis verður fjallað stuttlega um þessa þætti hér, en mikilvægt er að starfsfólk leikskóla kynni sér vel hvernig grunnþættir menntunar eiga að fléttast inn í leik og daglegt starf í leikskólum. Leikur, lýðræði, mannréttindi og jafnrétti Lýðræði, mannréttindi og jafnrétti eru mikilvægir þættir þegar kemur að leik barna. Samkvæmt 31. grein laga um Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (nr. 19/2013) hafa öll börn rétt á að leika sér. Í leikskólum landsins dvelur fjölbreyttur hópur barna, sem hafa ólíkan bakgrunn og mismunandi þarfir. Til þess að leikur geti verið helsta náms- og þroskaleið þeirra þurfa þau að vera virkir þátttakendur í leik með öðrum börnum (Jóhanna Einarsdóttir og Sara M. Ólafsdóttir, 2020). Leikskólakennarar og annað starfsfólk þarf að átta sig á eigin gildum, þar sem þau skipta máli í starfi með börnum. Það er mikilvægt að starfsfólk finni leiðir til þess að öll börn geti verið þátttakendur í leik með öðrum börnum og að starfsfólk hugi að tækifærum barna til að ræða um málefni sem snúa að þessum þáttum (Anna Elísa Hreiðarsdóttir, 2018).

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=