17 börn taki þátt í sama leiknum getur upplifun þeirra og reynsla af þátttökunni verið ólík (Kingdom og Gasper, 2020, bls. 35). Að læra í leik Í gegnum tíðina hefur fjöldi rannsókna sýnt fram á mikilvægi leiks í námi barna en þrátt fyrir það hefur hann ekki alltaf fengið þá stöðu innan leikskóla sem hann ætti að hafa. Eftir því sem börn eldast fá þau minni tíma til þess að leika sér og aukin áhersla verður á beina kennslu eða formlegt nám. Slíkar kennsluaðferðir hafa í auknum mæli leitað inn í leikskóla landsins, oft í þeim tilgangi að búa börn undir formlegra nám grunnskólans (Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir og Jóhanna Einarsdóttir, 2012; Jóhanna Einarsdóttir, 2020). Samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla (2011, 2023) á leikur að vera meginnámsleið barna og því er mikilvægt að skilja hvað og hvernig börn læra í leik með öðrum börnum og með stuðningi leikskólakennara og starfsfólks leikskóla. Rannsóknir hafa leitt í ljós að börn læra fjölbreytta færni í leik sem þykir mikilvæg fyrir menntun þeirra á 21. öldinni. Þau þróa meðal annars með sér félagslega færni, gagnrýna og skapandi hugsun, skapa þekkingu, æfa fjölbreytt hlutverk og þær athafnir sem fylgja hverju hlutverki. Börn læra þannig að vera virkir þátttakendur í samfélaginu og auka skilning sinn á heiminum í kringum sig (Kristín Karlsdóttir o.fl., 2019; MacDonald, 2022; Paatsch o.fl. , 2024). Nám barna í leikskólum fer fram í félagslegu samhengi. Leikur er félagsleg athöfn þar sem börn læra með jafningjum og sér hæfari einstaklingum (Bodrova, 2008; Vygotsky, 1966). Börn hafa ólíka reynslu og þekkingu sem þau leggja til í leik sínum, auk þess sem þau vinna úr reynslu sinni og skapa nýja þekkingu (Corsaro, 2015). Börn leika og læra í félagi með öðrum börnum, þar sem þau leggja til hugmyndir sínar, þekkingu og reynslu, sem verður til þess að börn læra af athöfnum sínum og annarra þegar þau leika sér. Börnin sem tóku þátt í rannsókn Kristínar Karlsdóttur og félaga (2023) öðluðust fjölbreytta færni í leik, svo sem skipulagningu, lausn vandamála, samningaviðræður og að setja sig í spor annarra. Auk þess lærðu þau þætti sem tengjast læsi og stærðfræðinámi. Börnin sem voru þátttakendur í rannsókn Colliver og Fleer (2016) sögðust læra reglur þegar þau léku sér, þ.e. reglur sem tengdust þeim hlutverkum og aðstæðum sem þau voru í. Börnin litu á leikinn sem þátttökuferli þar sem þau könnuðu hlutverk og reglur samfélagsins og lærðu þannig um hvernig heimurinn virkar. Hér á eftir verður fjallað ítarlegar um nám barna í leik þar sem farið er inn á grunnþætti menntunar.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=