Handbók um leikinn

16 Af hverju er börnum mikilvægt að leika sér? Leikur er helsta náms- og þroskaleið barna auk þess sem hann er mikilvægur fyrir félags- og tilfinningalega vellíðan þeirra (Aðalnámskrá leikskóla, 2011; Storli og Sandseter, 2019). Leikur er lykilinn að færni sem er þýðingarmikil fyrir börn svo að þeim gangi vel í námi og daglegum athöfnum. Í leik æfa börn færni eins og sköpun, nýsköpun, samvinnu, athygli, einbeitingu, seiglu, tjáningu, samhygð og framkvæmd (Sahlberg, 2019). Í leik sýna börn yfirleitt mikla sjálfstjórn og vellíðan. Þar taka þau ákvarðanir og leysa vandamál, byggja upp sjálfstraust og fjölbreytta færni sem ekki er hægt að kenna á annan hátt (MacDonald, 2022). Í leik geta börn sett fram tilgátur og kenningar og látið á þær reyna í öruggu umhverfi. Þau taka áhættu og leysa vandamál en þar er í lagi að mistakast því alltaf má reyna aftur og þannig þróa börn með sér seiglu. Seigla er mikilvæg fyrir nám barna og daglegt líf vegna þess að hún getur hjálpað þeim að takast á við breytingar, kvíða og streitu. Ef börn fá mörg tækifæri til þess að æfa sjálfstjórn og leysa vandamál í leik, með jákvæðum stuðningi fullorðinna, er líklegt að þau þrói með sér seiglu. Börn sem fá mörg tækifæri til þess að leika sér og eiga í samskiptum eru líklegri til þess að geta leyst vandamál sem upp kunna að koma í daglegu lífi þeirra (Kingdon og Gasper, 2020). Þegar börn leika sér æfa þau félagslega færni þar sem þau mynda tengsl við önnur börn og fullorðna og læra á umhverfi sitt. Þar eiga þau samskipti og geta tjáð sig með fjölbreyttum hætti (Juutinen o.fl., 2023). Börn geta styrkt tengsl sín við það sem þau þekkja og takast á við í raunveruleikanum. Þau byggja leik oft á reynslu sinni, þekkingu eða upplifunum og nýta hann til þess að vinna úr þeim. T.d. ef barn eignast systkini eða flytur er líklegt að það leiki slíkar athafnir. Stúlka sem tók þátt í rannsókn Söru og félaga (2017) vildi yfirleitt leika stóru systurina vegna þess að hún hafði nýlega fengið það hlutverk í raunveruleikanum og notaði leikinn til þess að máta sig í það. Leikur er þýðingarmikill fyrir fullgildi barna í leikskólum. Hugtakið fullgildi vísar til félagslegra samskipta barna, þátttöku þeirra og þess að tilheyra leikskólasamfélaginu (Jóhanna Einarsdóttir og Sara M. Ólafsdóttir, 2020). Þegar börn voru spurð hvað þeim þætti skemmtilegast að gera í leikskólanum nefndu þau yfirleitt að vera með vinum sínum. Því þarf að skapa aðstæður í leikskólanum svo að börn geti byggt upp vináttutengsl við önnur börn, en þar hefur leikurinn mikið gildi (Arvola o.fl., 2017; Jóhanna Einarsdóttir og Sara M. Ólafsdóttir, 2020). Þá er mikilvægt að hafa í huga að þó að

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=