Handbók um leikinn

15 Leikur yngstu barna, líkt og þeirra sem eldri eru, byggir á áhuga þeirra og þörfum og því þarf að skipuleggja námsumhverfið út frá barnahópnum hverju sinni (Hrönn Pálmadóttir, 2019). Hér er dæmi úr rannsókn Hrannar um samskipti og leik yngstu barna í leikskóla og hvernig leikskólakennari getur hvatt og stutt þau til leiks. Hrönn Pálmadóttir og Jóhanna Einarsdóttir (2012) benda á mikilvægi þess að skilja þær fjölbreyttu leiðir sem ung börn nota til þess að taka þátt í leik með öðrum börnum og hvernig þau viðhalda leik. Með skilningi á slíku geti leikskólakennarar og starfsfólk leikskóla betur stutt við merkingarsköpun ungra barna í leik. Mikilvægt er einnig að vera vakandi fyrir þeim fjölbreyttu óyrtu leiðum sem börn nota til að eiga í félagslegum samskiptum við önnur börn og mikilvægi jafningjahópsins fyrir leik og vellíðan ungra barna í leikskólum (Engdahl, 2021; Pursi &Lipponen, 2020). Tvö börn, með málningarsvuntur, stóðu við borð og máluðu köngla með gulri málningu. Nokkur börn horfðu áhugasöm á. Kennari aðstoðaði börnin. Einingakubbar voru á mottu á gólfinu og þar sat annar kennari. Börnin fóru þangað eftir að hafa horft á málarana í smástund. Kennarinn raðaði kubbum upp og börnin gerðu eins, hún talaði líka í símann við börnin og notaði kubb til þess. Á ganginum var ýmislegt í boði til hreyfingar, svo sem boltar og trévagn, og þar var einn kennari. Í byrjun voru þar engin börn en svo komu börnin þangað eitt og eitt (Hrönn Pálmadóttir, 2019, bls. 12).

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=