Handbók um leikinn

14 Leikur yngstu barna Mikilvægt er að fjalla sérstaklega um leik yngstu barnanna, þar sem hann einkennist meira af líkamlegri tjáningu en leikur eldri barna sem hér hefur verið lýst (Hrönn Pálmadóttir, 2017; Løkken, 2010). Rannsóknir hafa sýnt að yngri börn leiki meira samhliða en eldri börn. Nýlegri rannsóknir hafa þó bent á að félagsleg einkenni koma snemma í ljós og eru líka til staðar í samhliða leik, en sá þáttur verður síðan meira áberandi eftir því sem börn eldast (Bryndís Gunnarsdóttir og Bateman, 2022; Hännikäinen og Munter, 2018; Wood, 2014). Ung börn nota mikið líkama sinn til að tjá sig og fyrirætlanir sínar um að hefja leik með öðrum börnum. Stundum hringsóla þau í kringum leik annarra barna og gefa til kynna til dæmis með efniviði eða einföldum orðum að þau vilji taka þátt (Corsaro, 2003). Til þess að viðhalda leik nota þau meðal annars augnsamband, líkja eftir athöfnum hvert annars og tjá sig með hljóðum og orðum. Auk þess nota þau efnivið til þess að viðhalda leik með öðrum börnum þar sem stór leikföng, til dæmis púðar og kerrur, geta hjálpað þeim að tengjast hvert öðru og kallað fram líkamlega virkni þeirra (Hrönn Pálmadóttir og Jóhanna Einarsdóttir, 2012).

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=