11 Í rannsókn Söru M. Ólafsdóttur og Jóhönnu Einarsdóttur (2019) sátu fjögur börn á gólfi með dómínókubba en notuðu þá í misjöfnum tilgangi; tvær stúlkur röðuðu kubbunum upp og létu þá detta og fylgdu þannig eftir fyrirliggjandi reglum kubbanna og sögðust því ekki vera að leika sér, heldur spila. Tveir drengir sem notuðu sama efnivið sögðust vera að leika sér af því að þeir notuðu efniviðinn á annan hátt en ætlast var til. Þeir notuðu kubbana sem karla og settu reglurnar sjálfir og voru því í þykjustuleik, eins og annar drengjanna orðaði það: Guðmundur: „Af því að þú ræður hvað þú getur gert úr þessu og kubbarnir gætu verið karlar eða eitthvað“ Börnin fjögur höfðu því ólíka sýn á athafnir sínar, þar sem þau tengdu leik við þá iðju að geta ákveðið sjálf hvernig þau notuðu efniviðinn og sömdu reglurnar sjálf. Þau þurftu ekki að fylgja fyrir fram ákveðnum reglum eða reglum sem aðrir settu. Eitt af megineinkennum leiks felst einmitt í því að börn setji sjálf reglur leiksins.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=