Aðalnámskrá grunnskóla - endurskoðun greinasviða kaflar 17-26

3 Helstu breytingar í endurskoðaðri Aðalnámskrá grunnskóla 2024 Í kafla 17, um kennslu, nám og námsmat á öllum greinasviðunum koma fram mikilvæg atriði sem allir kennarar þurfa að vinna með. Áhersla er þar lögð á að skóla nýti sjálfstæði sitt til að skipuleggja stundaskrá og vinnu á greinasviðunum eins og hentar stefnu þeirra. Kennsluhættir eiga að vera fjölbreyttir til að mæta ólíkum þörfum nemenda, námsmat þarf að vera leiðbeinandi og viðfangsefni þurfa að höfða til nemenda og miða að því að auka leikni þeirra og þekkingu, orðaforða og námsáhuga. Mikilvægt er að skapa heildstæða samfellu í námi nemenda og gæta þess að líta á hæfniviðmið greinakafla sem samfellda heild því þótt þau séu flokkuð í undirkafla eru fjölmargar skaranir og tengingar á milli ólíkra undirkafla námsgreina og þvert á ólíkar greinar. Allir kennarar verða að taka ábyrgð á því að efla málþroska og læsi allra nemenda. Aðalnámskrá grunnskóla byggir áfram á sex grunnþáttum menntunar og með því að hugsa skólastarf út frá þeim má skapa góða heildarsýn í starfinu. Lykilhæfniviðmiðin gegna mikilvægu hlutverki til að grunnþættirnir birtist í daglegu skólastarfi og að nemendur fái tækifæri til að efla þá hæfni sem nauðsynleg er heilbrigðum borgurum í lýðræðissamfélögum. Í skólum er mikilvægt að tryggja nemendum góðar aðstæður til náms. Í því felst að námsumhverfið sé öruggt, fjölbreytt og styðjandi, að hlustað sé á þarfir og skoðanir barna og að öll samskipti miði að því að efla félagsleg tengsl og námshæfni nemenda. Námsmat. Áhersla er lögð á að kennarar nýti fjölbreyttar aðferðir við mat á stöðu nemenda til að fá sem heildstæðasta mynd af hæfni nemenda. Skipuleggja á kennslu og námsmat út frá hæfniviðmiðum aðalnámskrár með aðferðum leiðsagnarmats. Í því felst að markmið náms eru sýnileg nemendum í daglegu starfi og þeir fá stöðuga og uppbyggilega endurgjöf í námsferlinu. Matsviðmið eru nýtt við frágang lokamats og skólum er skylt að nota A-D matskvarðann við útskrift nemenda úr grunnskóla. Mikilvægi 17. kafla fyrir kennslu allra greinasviða Við endurskoðun Aðalnámskrár 2024 var áhersla lögð á að einfalda og skýra hæfniviðmið og samræma inntak greinakaflanna. Atriði sem eiga við um allar námsgreinar Yfirheiti hafa verið sett fyrir framan öll hæfniviðmið. Þau lýsa á hnitmiðaðan hátt inntaki hæfniviðmiða og tengslum þeirra milli aldursstiga. Gefa fljótlega yfirsýn um efni greinakafla og geta nýst vel við skipulag samþættra verkefna. Lykilhæfni. Lykilhæfni er sú hæfni einstaklingar þurfa að hafa til að geta tekist á við nám og störf í síbreytilegu nútímasamfélagi. Hún snýr að læsi, tjáningu og fjölbreyttri miðlun, sjálfstæði í vinnubrögðum og samvinnu- hæfni, skapandi og gagnrýninni hugsun og ábyrgð í námi. Langflest lykilhæfnitengd hæfniviðmið voru færð úr námsgreinum og inn í eða sameinuð viðmiðum í kafla 18, Lykilhæfni. Í Aðalnámskrá 2024 er aukin áhersla lögð á að lykilhæfni verði samofin öllu námi og kennslu. Í því tilliti hefur verið gefið út stuðningsefni sem birt er á www.adalnamskra.is og nálgast má hér. Ekki eru birt matsviðmið við lykilhæfni. Skólar setja sér viðmið um árangur fyrir alla árganga í lykilhæfni og birta í skólanámskrá og má sjá ýmis dæmi um matskvarða í stuðningsefninu. Matsviðmið. Matsviðmið eru birt fyrir 4., 7. og 10. bekk fyrir allar námsgreinar nema lykilhæfni. Matsviðmið fyrir 10. bekk voru yfirfarin út frá þeim sem birtust í námskránni 2013 og endurskoðuðum hæfniviðmiðum. Matsviðmiðum við lok 10. bekkjar ber skólum að nota við útskrift nemenda úr grunnskóla. Matsviðmiðum við lok 4. og 7. bekkjar er ætlað að vera leiðbeinandi fyrir skóla og eru sett fram til að styðja við námsmat við lok yngsta og miðstigs. Í inngangsköflum um menntagildi og megintilgang hverrar námsgreinar eru mikilvægar upplýsingar um megintilgang greinarinnar, skipulag hæfniviðmiða og skipulagningu náms og kennslu. Stuðningsefni á vefnum adalnamskra.is. Á nýjum vef aðalnámskrár munu kennarar geta nálgast ítarefni tengt hverju hæfniviðmiði. Fyrst um sinn verður áhersla lögð á að birta þar hvaða hugtök nemendur þurfa að læra í tengslum við hvert hæfniviðmið og sýna dæmi um hvernig hægt sé að sundurliða hæfniviðmiðin í námsmarkmið sem eru afmarkaðri og henta betur í verkefnalýsingum og samtali við nemendur um framvindu náms. Áætlað er að nýr vefur birtist í áföngum árið 2025. 2

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=