Helstu breytingar á kafla 25 | Stærðfræði Skipulag og heiti undirkafla: Breyting var gerð á skipulagi kaflans þ.e. undirköflum var fækkað úr sjö í fimm. Undirkaflar í stærðfræðikafla aðalnámskrár frá 2013, sem sneru að almennum viðmiðum um stærðfræðilega hæfni, þ.e. Að geta spurt og svarað með stærðfræði, Að kunna að fara með tungumál og verkfæri stærðfræðinnar og Vinnubrögð og beiting stærðfræðinnar eru ekki birtir í sömu mynd. Áherslur þessara kafla eru nú sóttar í kafla 18, Lykilhæfni, undirkaflann Vinnulag stærðfræðinnar og kafla 25.1 Menntagildi og megintilgangur stærðfræði. Fjöldi og heiti kafla sem snúa að ólíkum sviðum stærðfræðinnar er óbreytt og þeir eru: Tölur og reikningur, algebra, rúmfræði og mælingar, tölfræði og líkindi. Sérstakar áherslur við endurskoðun greinasviðsins: Við endurskoðunina var áhersla lögð á að setja fram skýr hæfniviðmið og ákveðinn ramma utan um þá þætti stærðfræðinnar sem leggja skuli áherslu á í grunnskólanum. Fyrstu þrír kaflarnir voru sameinaðir í einn um vinnulag stærðfræðinnar með það að leiðarljósi að það verði einfaldara og skýrara fyrir kennara að vinna með þessi tilteknu hæfniviðmið. Breytingar á hæfniviðmiðum: • Hæfniviðmið voru 36-38 eftir aldursstigum en eru nú 32-36 eftir aldursstigum, fæst á yngsta stigi. Hvert og eitt viðmið hefur fengið yfirheiti. • Flest hæfniviðmiðin byggja á viðmiðum úr námskránni frá 2013 en sum hafa þó verið sameinuð og önnur tekin í sundur. Orðalag var einfaldað og hæfniviðmið gerð skýrari. Mikilvægt er að skólar og kennarar rýni hæfniviðmiðin vel og endurskoði og uppfæri val á námsefni, verkefni, námsmat og skólanámskrár til að taka rétt viðmið inn í starfið. • Víða voru upptalningar á hugtökum sem falla undir hæfniviðmiðið teknar út. Unnið er að gerð stuðningsefnis á vef þar sem kennarar geta nálgast skýrari upplýsingar um slík hugtök. • Hæfniviðmið um Reiknihugsun og forritun er nú komið inn á öllum aldursstigum. Orðalag hæfni- viðmiðanna er nokkuð opið og getur nýst í öllum sviðum stærðfræðinnar; tölum og reikningi, algebru, tölfræði og líkindum sem og rúmfræði og mælingum. • Hæfniviðmið um Fjármál var fært milli undirkafla og heyrir nú undir Tölur og reikningur. • Hæfniviðmið er varða Námundun er nú á öllum aldursstigum. • Hæfniviðmið sem snertir Þróun aðferða var sameinað úr nokkrum öðrum viðmiðum af svipuðum toga og er nú að finna í kaflanum Vinnulag stærðfræðinnar. • Hæfniviðmiðum í algebru fjölgaði úr þremur í fimm til sjö eftir aldursstigum. Viðmið sem áður voru efnismikil hafa verið aðgreind niður í fleiri viðmið. • Hæfniviðmiðum í Rúmfræði og mælingum fjölgaði úr sjö í níu á yngsta og miðstigi. Viðmið sem áður voru efnismikil hafa verið aðgreind niður í fleiri viðmið. • Hæfniviðmið er varða tíma og tímaeiningar má nú finna á öllum aldursstigum. • Hæfniviðmið með yfirheitin Sannanir og Hnitakerfi hafa tekið nokkrum breytingum og heyra nú undir Vinnulag stærðfræðinnar annars vegar og Algebru hins vegar. Tengsl við lykilhæfni og aðra greinakafla: Vinna á með lykilhæfniviðmiðin í öllu daglegu starfi skóla, flétta þau saman við vinnu með hæfniviðmið annarra námsgreina og nýta þau til að ræða ábyrgð, viðhorf og vinnulag við nemendur og foreldra. Í kafla 25, Stærðfræði eru nokkur viðmið nátengd hæfniviðmiðum í öðrum köflum og mikilvægt að nýta slík tækifæri til samþættingar. Lykilhæfniviðmiðin tengjast mörgum hæfniviðmiðum í stærðfræði. Sem dæmi má nefna viðmið sem tengjast tjáningu, orðaforða, tillitssemi, samskiptum, upplýsingaöflun og miðlun af ýmsu tagi, sköpun, rökræðu, ályktun, ígrundun, samvinnu og samstarfi. Þessi og fleiri viðmið lykilhæfninnar tengjast einnig áherslu í kafla 25.1 Menntagildi og megintilgangur stærðfræði á að kenna stærðfræðilega hugsun. Þar kemur meðal annars fram mikilvægi þess að nemendur þrói með sér jákvætt viðhorf til stærðfræðilegra viðfangsefna, öðlist trú á eigin getu og séu meðvitaðir um að mistök skapa tækifæri til náms. Viðmið í undirkafla lykilhæfninnar Ábyrgð og mat á eigin námi fjalla meðal annars um hugarfar vaxtar og hafa mikið gildi í stærðfræðinámi. Með samþættingu við lykilhæfniviðmiðin er einnig stuðlað að uppbyggingu öflugs námssamfélags þar sem borin er virðing fyrir hugmyndum allra. Hæfniviðmið í undirkaflanum Vinnulag stærðfræðinnar tengjast fjölmörgum lykilhæfniviðmiðum í undirköflunum Tjáning og miðlun, Skapandi og gagnrýnin hugsun og Sjálfstæði og samvinna. Mikilvægar tengingar eru milli hæfniviðmiða í stærðfræði og upplýsinga- og tæknimennt: Mikilvægar tengingar eru milli hæfniviðmiða á sviði fjármálalæsis í nokkrum námsgreinum. Í stærðfræðikaflanum ber hæfniviðmiðið yfirheitið Fjármál. Í samfélagsgreinum eru tvö skyld viðmið: Fjármál einstaklings og Samneysla og í heimilisfræði er hæfniviðmiðið Kostnaður. 22 23 Stærðfræði Reiknihugsun og forritun Myndrit Gagnavinnsla Verkfæri og hlutbundin gögn Upplýsinga- og tæknimennt Notkun hugbúnaðar og einföld forritun Stafrænn stuðningur Vinnsla tölulegra gagna Greining og úrvinnsla gagna
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=