Laxdæla saga

92 Þorgerður bað hann heilan njóta handa og sagði að Guðrún mundi nú greiða rautt hár Bolla um hríð. Eftir þetta ganga þau út úr selinu. Guðrún gengur þá neðan frá læknum og til tals við þá Halldór og spyr hvað hafi gerst í skiptum þeirra Bolla. Þeir segja henni það. Guðrún var í kyrtli og þröngum upphlut með fald á höfði. Hún hafði hnýtt um sig blæju með kögrum á enda. Helgi Harðbeinsson gekk að Guðrúnu og tók blæjuendann og þurrkaði blóð af spjótinu sem hann hafði lagt í gegnum Bolla. Guðrún leit til hans og brosti við. Þá mælti Halldór: „Þetta er illmannlega gert og grimmlega.“ Helgi bað hann að harma það ekki, „því að ég hygg það,“ sagði hann, „að undir þessu blæjuhorni búi minn höfuðsbani.“ Síðan tóku þeir hesta sína og riðu í brott. Guðrún gekk á veg með þeim og talaði við þá um hríð. Síðan sneri hún aftur. Á eftir ræddu förunautar Halldórs um að Guðrún brygði sér lítið við dráp Bolla. Hún hefði talað við þá eins og þeir hefðu ekkert gert sem væri henni á móti skapi. Þá svarar Halldór: „Ekki er það mín ætlan að Guðrúnu þyki lítið lát Bolla. Hygg ég að henni gangi það meir til að hún vildi vita hverjir hefðu verið í þessari för. Það er og von að Guðrúnu þyki mikið lát Bolla, því að það er satt að segja að eftir slíka menn er mestur skaði, þó að við frændur bærum eigi gæfu til samþykkis.“ Eftir þetta ríða þau heim í Hjarðarholt. blæja er þunnur dúkur höfuðsbani merkir banamaður

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=