Laxdæla saga

57 16. Bolli og Guðrún Ekki hafði Bolli verið lengi heima þegar hann reið vestur að Laugum í Sælingsdal að skemmta sér. Guðrún spurði hann vandlega um ferðir hans og síðast spurði hún um Kjartan. Bolli sagði að allt væri gott af Kjartani að frétta. Hann væri í hirð Ólafs konungs og meira metinn þar en nokkur maður annar. „En ekki kemur mér að óvörum þó að hann sjáist lítið hér í landi hina næstu vetur.“ Guðrún spyr hvort nokkuð valdi því annað en vinátta þeirra konungs. Bolli segir hvað talað sé um vináttu Kjartans og Ingibjargar konungssystur og sagðist halda að konungur mundi heldur gifta honum Ingibjörgu en láta hann lausan, ef því væri að skipta. Guðrún sagði að það væru góð tíðindi: „Því aðeins er Kjartani fullboðið, ef hann fær góða konu.“ Fleira sagði hún ekki en roðnaði og gekk í burt. Bolli var heima í Hjarðarholti um sumarið. Hann kom oft til Lauga og talaði við Guðrúnu. Eitt sinn spurði hann hana hverju hún mundi svara ef hann bæði hennar. Þá svarar Guðrún skjótt: „Ekki þarftu slíkt að ræða, Bolli. Engum manni mun ég giftast meðan ég spyr Kjartan á lífi.“ Bolli svarar: „Það held ég að þú verðir að sitja nokkra vetur mannlaus ef þú skalt bíða Kjartans. Hann hefði getað beðið mig að skila einhverju til þín, ef honum hefði þótt það miklu máli skipta.“ Skiptust þau nokkrum orðum á um þetta og þótti sinn veg hvoru. Síðan reið Bolli heim.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=