Laxdæla saga

25 „Veit ég og, Höskuldur,“ segir Egill, „að þú ert ættstór maður og mikils verður en Ólafur er frægur af ferð sinni. En þó skaltu nú þetta við Þorgerði ræða, því að það er engum manni færi að fá Þorgerðar án hennar vilja.“ Höskuldur mælti: „Það vil ég, Egill, að þú ræðir þetta við dóttur þína.“ Egill sagðist skyldu gera það. Hann gekk nú til fundar við Þorgerði og tóku þau tal saman. Egill mælti: „Maður heitir Ólafur og er Höskuldsson, einhver frægasti maður sem nú er uppi. Höskuldur faðir hans hefur vakið bónorð fyrir hönd Ólafs og beðið þín. Hef ég skotið því til þinna ráða. Vil ég nú vita svör þín en mér finnst þetta gjaforð göfugt.“ Þorgerður svarar: „Það hef ég þig heyrt segja að þú unnir mér mest barna þinna. En það finnst mér ekki sannast ef þú vilt gifta mig ambáttarsyni, þó að hann líti vel út og láti mikið á sér bera.“ Egill segir: „Hefurðu ekki frétt að hann er dóttursonur Mýrkjartans Írakonungs? Hann er miklu betur ættaður í móðurætt en föðurætt og væri föðurættin þó fullboðleg.“ Ekki féllst Þorgerður á þetta. Daginn eftir gengur Egill í búð Höskulds og spyr Höskuldur hvernig bónorðsmálin hafi gengið. Egill segir honum hvernig farið hafði. Ekki var Ólafur við tal þeirra. Eftir að Egill var farinn kemur Ólafur og spyr föður sinn hvað líði bónorðsmálum. Höskuldur segir að þau gangi illa. Ólafur mælti: „Nú er sem ég sagði þér, faðir, að mér mundi illa líka ef ég fengi svívirðingu af þessu bónorði. Þú réðst því að fá Þorgerðar þýðir að eignast Þorgerði fyrir eiginkonu

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=